Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 800  —  334. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Loga Einarssyni um aldursgreiningar og siðareglur lækna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Telur ráðherra að framkvæmd aldursgreininga á umsækjendum um alþjóðlega vernd, þá sérstaklega tanngreininga, samræmist siðareglum lækna?
     2.      Hafa heilbrigðisyfirvöld tjáð afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga, og ef svo er, hver er hún?


    Læknum, sem og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, ber samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Þeim ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Ráðherra óskaði eftir áliti landlæknis á því hvort aldursgreining á tönnum samræmist lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Í umsögn landlæknis kemur fram að ekki yrði annað séð en að þeir sérfræðingar sem sinna aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstaklinga. Réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggist á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum. Nákvæmni aldursgreininga á tönnum sé umtalsverð en ekki óskeikul frekar en aðrar læknisfræðilegar rannsóknir. Tók landlæknir fram að hann teldi aldursgreiningar á tönnum samræmast siðareglum lækna.
    Að öðru leyti en hér að framan greinir er ráðherra ekki kunnugt um að heilbrigðisyfirvöld hafi tjáð afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga.